Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum

 

 Ég hvet alla til að horfa á þetta myndband sem Lára Hanna Einarsdóttir setti saman af ótrúlegri snilld og fjallar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Lára Hanna hefur á bloggi sínu safnað saman upplýsingum um það sem hefur komið fram í fjölmiðlum um olíuhreinsistöð sem leynilegur fulltrúi leynilegs fyrirtækis hefur hug á að skella niður Hvestu í Arnarfirði.  Lesið líka bloggið hennar Láru Hönnu. http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/

 


Við stelpurnar á heimilinu hlupum saman í dag

 kvernnahlaup

Bryndís, Bryndís Helka, Svanlaug, Ísabella og Kata

Við stelpurnar í fjölskyldunni hlupum saman í dag á Ísafirði í kvennahlaupinu, Bryndís Hekla hljóp í kerru með Svanlaugu mömmu sinni og dóttur minni, tvíburarnir þeirra Kötu og Steina sonar míns hlupu í vagni með sinni mömmu og Ísabella yngri dóttir mín hljóp líka með okkur, barnlaus enda er hún ekki nema þrettán. Við hlupum sem sagt allar stelpurnar í fjölskyldunni og ungarnir líka. Fjöldi kvenna tók þátt í hlaupinu á Ísafirði í yndislegu veðri, hlýju og björtu.  Konur á öllum aldri tóku þátt, sumar í hjólastól sumar gangandi, aðrar skokkandi og enn aðrar hlupu á harða spretti eins og t.d. hún Ísabella mín sem hljóp sjö kílómetra. 

Kvennahlaup á Ísafirði

Svanlaug, Kata og Bryndís Hekla

Svanlaug, Bryndís Hekla og Kata. Tvíburarnir Már Óskar og Valdís Rós í vagninum

kvennahlaup á Ísafirði

Þarna er hún Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Ísafirði fremst á myndinni


Rice spurð óþægilegra spurninga

Condoleezza Rice fundaði með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á dögunum og þurfti að svara óþægilegum spurningum. Það er gott til þess að vita að gestir frá Bush stjórninni skuli fá heyra það.

Á fundinum var Rice spurð út í ályktun sem samþykkt var á Alþingi af öllum viðstöddum þingmönnum. Ályktunin felur í sér fordæmingu á mannréttindabrotum í fangabúðum Bandaríkjanna í Guantanamo á Kúbu og skorað er á Bandaríkjamenn að loka búðunum. Rice fullyrti að mannréttindabrot væru ekki framin í Guantanamo í dag og vísaði hún í ítarlega skýrslu OECD um málið. Hvatti hún íslenska þingmenn til að kynna sér efni skýrslunnar.  Já, það var nefnilega það !


Ingibjörg Sólrún er ekki lengur kona úti í bæ

Það muna flestir Íslendingar eftir þeim gjörningi sem fór fram á Alþingi með hraði síðustu dagana fyrir jól árið 2003. Þá gáfu alþingismenn sjálfum sér stóran jólapakka sem innihélt eftirlaunafrumvarp sem færir þeim miklu veglegri lífeyri en aðrir landsmenn njóta. Það var Davíð Oddson sem leiddi þá vinnu og fékk fulltrúa allra flokka til að leggja fram frumvarpið. Nánast engin umræða fór fram um málið á Alþingi, frumvarpinu var skellt í atkvæðagreiðslu með hraði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem ekki sat á Alþingi á þessum tíma flýtti sér niður í þinghús og skammaði Samfylkinguna fyrir athæfið. Það heyrðist sú fregn að Davíð hefði af því tilefni spurt alþingismenn af hverju þessi kona úti í bæ væri að þvælast á göngum þinghússins. 

Nú er ISG ekki lengur kona úti í bæ heldur kona með völd og hefur lýst því yfir að nú verði gerðar breytingar á þessum eftirlaunaósóma. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fengu að vísu hóp lögfræðinga á síðasta kjörtímabili til að kanna hvort það stæðist mannréttindalög að afnema réttindi sem þegar hafa verði veitt með lögum. ISG ætlar samt að láta Sjálfstæðisflokkinn éta þetta oní sig og afnema það óréttlæti að alþingismenn, ráðherrar, hæstaréttardómarar og forseti geti samtímis þegið eftirlaun og verið í launaðri vinnu. Já það er munur að vera ekki lengur kona úti í bæ.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/11/eftirlaunalog_althingis_verda_felld_ur_gildi/


Við mæðgurnar þögðum í dag

Við mæðgurnar þögðum í dag. Það var alger þögn í húsinu í þrjár mínútur meðan við gerðum okkur í hugarlund betri heim með hreinu drykkjarvatni, nægum mat og heimili án ofbeldis, öllum börnum til handa. Þetta er liður í átakinu ,,Standing women" sem er alþjóðleg hreyfing kvenna sem tók höndum saman þann 11 maí á síðasta ári fyrir betri heimi, komandi kynslóðum til handa. Nú taka íslenskar konur þátt í átakinu og það gerðum við stelpurnar líka hér á heimilinu. Meira að segja þriggja ára barnabarnið lét ekki í sér heyra meðan við mamma hennar íhuguðum. Hvað ætli sú stutta hafi verið að hugsa? 

 

 


Hagsmunapot eða öfund í Bolungarvík

Það er ekki heil brú í málflutningi Önnu Guðrúnar Edvrdsdóttur í Bolungarvík. Eiga bæjarbúar að trúa því að ástæðan fyrir meirihlutaslitum sé sú að það fari ekki saman að bæjarfulltrúar séu að vasast í atvinnurekstri og sinna störfum bæjarstjórnar? Ja, þá er aldeilis Bleik brugðið. Í Bolungarvík, af öllum bæjum á Íslandi ! Ég veit ekki betur en að bæjarfulltrúar þar í bæ hafi í gegn um tíðina verið í atvinnurekstri og það umsvifamiklum, án þess að það truflaði störf bæjarstjórnar. Nei, hún Anna Guðrún Edvarðsdóttir sem klauf sig út úr Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu kosningar og skuldar bæjarbúum skýringu. Af hverju getur hún unnið nú með því fólki sem var óalandi og óferjandi fyrir síðustu kosningar?  Hún gat ekki hugsað sér þá að vinna með Elíasi Jónatanssyni sem hún nú hefur gert að bæjarstjóra. Er heil brú í þessu, ég bara spyr? Sumir segja að hjarðhugsun ein ráði ávallt för í Sjálfstæðisflokknum og villuráfandi sauðir rati alltaf að lokum að jötunni aftur.

Þetta er óréttlátt gagnvart Bolvíkingum, já og nágrannasveitarfélögunum líka. Grímur kom ferskur inn sem bæjarstjóri fyrir tveimur árum, það gustaði af honum, hann kom með ferskan blæ inn í bæinn, nýjar hugmyndir, taldi kjark í fólk á erfiðum tímum, gerði kröfur til stjórnvalda og hvatti fólk til að sækja sinn rétt. Grímur Atlason og Soffía Vagnsdóttir gerðu kröfu um alvöru jarðgöng alla leið meðan liðið hennar Önnu Edvards þakkaði kurteislega fyrir að Sturla Böðvarsson þáverandi samgönguráðherra ætlaði að bora aðeins hálf göng

Hvaða hagsmunir lágu að baki þessari ákvörðun? Eða var öfund látin ráða för? Svona spurningar vakna þegar ekki er heil brú í þeim skýringum sem gefnar eru sem ásæða fyrir að hafna Grími  Atlasyni sem bæjarstjóra og Soffíu Vagnsdóttur athafnakonu í Bolungarvík.  

 

Ég tók þessa mynd af heimasíðu Bolungarvíkur. bolungarvik.is


Náttúruverndarsamtök Vestfjarða

Frá fundinum 

 

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða voru stofnuð laugardaginn 5. apríl að viðstöddum umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur sem ávarpaði fundinn. Einnig voru með innlegg á fundinum Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson sem óþarfi er að kynna. Hátt í hundrað manns voru á fundinum og var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða skora á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði.    Náttúruverndarsamtök Vestfjarða hvetja til þess að komið verði á virkri og víðtækri gagnasöfnun um náttúrufar, dýralíf, sjávarvistkerfi og gróður í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fræðasetur á Vestfjörðum. Í þessu skyni verði veitt fé úr ríkissjóði til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum. 

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða kalla eftir samstarfi við stjórnvöld um verndun náttúru, umhverfisfræðslu, friðlýsingu merktra og fagurra staða, verndun minja og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.

   

 


Ísland er ekki aflögufært um losunarheimildir fyrir olíuhreinsistöð

Þá höfum við það, svart á hvítu. Ef einhver ætlar að reisa olíuhreinsistöð á Íslandi þá þarf sá aðili að kaupa losunarheimildirnar erlendis. Þær heimildir sem Ísland hefur samkvæmt skuldbindingum  til ársins 2012 um losun á gróðrhúsalofttegundum duga ekki fyrir olíuhreinsistöð. Þetta kemur fram í svari Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra til Álfheiðar Ingadóttur á Alþingi. Álfheiður spyr margra þarfra spurninga um olíuhreinsistöð og aðkomu ríkisvaldsins að slíkum framkvæmdum. Í svari iðnaðarráðherra kemur fram að ráðuneytið er ekkert að aðhafast í þeim málum enda liggur ekkert á borðinu varðandi orkuöflun, losunarheimildir, umhverfisáhrif og framkvæmdaaðila. Þá geta Íslendingar andað léttar og hætt að karpa um eitthvað sem aldrei verður að veruleika, snúið sér að öðrum málum og haldið áfram að vinna að uppbyggingu atvinnulífs í stóriðjulausum landsfjórðungi.  Fyrirspurnina og svarið má sjá  hér 

 

 


Vestfirsk náttúruverndarsamtök stofnuð 5. apríl

Um þessar mundir hefur undirbúningshópur unnið að því að endurreisa virðuleg samtök sem störfuðu hér á árum áður á Vestfjörðum og heita vestfirsk náttúruverndarsamtök. Samtökin hafa verið óvirk í 20 ár eða um það bil.Endurlífgunin mun eiga sér stað í Hömrum á Ísafirði laugardaginn 5. apríl kl. 14.00. Á fundunum verða flutt áhugaverð erindi auk þess sem kosin verður ný stjórn og samþykktir fyrir samtökin. Á fundinum mun Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra  flytja ávarp auk þeirra Árna Finnssonar formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómars Ragnarssonar, fjölmiðlamanns, stjórnmálamanns, náttúruunnanda eða bara lífskúnstners.

Nú þegar hefur fjöldi fólks skráð sig í samtökin og hvet ég alla til að mæta á fundinn eða skrá sig í samtökin. Hægt er að setja sig í samband við undirritaða með tölvupósti á bryndis@isafjordur.is


Það er allt að gerast um páskana á Ísafirði

Það er allt að gerast um páskana á Ísafirði. Þess vegna ætlum við stórfjölskyldan, börn og barnabörn að vera heima og taka þátt í þeim viðburðum sem í boði eru.  Skíðavikan er í góðum höndum hjá henni Önnsku vinkonu minni, hún kann að halda risastóra veislu með stæl. Ef einhverjir eru að hugsa um að gera sér glaðan dag um páskana þá hvet ég þá til að vera með okkur á ísfirsku skíðavikunni. Þetta verður í boði:  

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður, Trúbadorinn Siggi Björns á Vagninum, göngubingó fyrir alla fjölskylduna, furðufatadagur í Tungudal, danssýning, ljósmyndasýning, myndlistarsýning, kajaksiglingar með Sigga Hafberg, gúllassúpan hennar Ólafar Davíðs, útgáfutónleikar Bermuda, sýning á skíðaminjum í Sóltúni, Dimmalimm í Tjöruhúsinu, gönguskíðaferð um friðland Hornstranda, Rocky Horror í Edinborgarhúsinu og fleira og fleira. Þú þarft ekkert endilega að vera góður á skíðum til að taka þátt, það er svo ótalmargt í boði alla vikuna.

Hér er heimasíðá skíðavikunnar gjörið svo vel.  http://skidavikan.is/   og heimasíða Aldrei fór ég suður. aldrei.is

 

 

Þetta er hún Edda Katrín nágranni minn á Hlíðarveginum ættuð úr Mjógötunni hans Dóra Hermanns. Myndina tók ég af heimasíðu skíðavikunnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband