Færsluflokkur: Bloggar

Tillögur til að snúa vörn í sókn í byggðamálum

Bæjarfulltrúar Í listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafa lagt fram vandaðar tillögur sem eiga að blása til sóknar í atvinnulífi á svæðinu. Þetta eru raunhæfar tillögur unnar af samhentum hópi sem stöðugt stendur vaktina.  Þó Í listinn sem skipaður er fulltrúum Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra sé í minnihluta þá virðast fulltrúar þeirra í nefndum og stjórnum bæjarins sífellt hafa frumkvæði við að leggja á ráðin varðandi sóknarfæri sem eru í sjónmáli.  

Hér kemur frétt sem birtist á BB vefnum þann 6. september sl. varðandi  tillögur Í listans: 

 

"Tillögur til að snúa vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum

Nauðsynlegt er að íbúar Ísafjarðar og Vestfjarða allra sameinist um tillögur sem geta snúið vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum héraðsins. Þetta segja bæjarfulltrúar Í-listans í Ísafjarðarbæ, en þeir og bæjarmálaráð flokksins hafa í sumar lagt fram tillögur í atvinnumálum sem hafa verið leiðarstef fulltrúa listans í bæjarráði og nefndum Ísafjarðarbæjar síðustu mánuðina. Ennfremur hafa þessar tillögur verið lagðar fram í viðræðum við ráðherra og þingmenn á undanförnum vikum og segja fulltrúarnir að áfram verði unnið að framgangi tillagnanna á þeim vettvangi.

Tillögur Í-listans ná til sjávarútvegs, uppbyggingu opinberrar þjónustu, nýsköpunar og nýiðnaðar og almennra aðgerða stjórnvalda til stuðnings byggð og atvinnulífi, auk þess sem lagðar eru til aðgerðir til lengri tíma sem eiga að tryggja og efla byggð á Vestfjörðum. Sem dæmi má nefna tillögu um að Háskóli Vestfjarða verði stofnaður árið 2008 og aðra um að endurgreiðsla námslána falli niður á skilgreindum vaxtarsvæðum. Aðrar tillögur lúta til dæmis að frekari uppbyggingu þorskeldis og kræklingaeldis í fjörðum hér vestra, að strax verði byrjað að nýta Störf án staðsetningar með Vestfirði sem sýnidæmi, Orkubú Vestfjarða verði eflt með stækkun starfssvæðis og hitavatnsöflun og að Hafrannsóknastofnun og/eða Landhelgisgæslan flytji útgerð skipa til Ísafjarðar.

Í tilkynningu Í-listans segir: „Það er kunnara en frá þurfi að segja, að alvarleg tíðindi hafa orðið í atvinnumálum hér vestra á síðustu mánuðum. Lokun sjávarútvegsfyrirtækja og ákvörðun um þriðjungs niðurskurð á þorskveiðum ber þar hæst. Því er nauðsynlegt að íbúar Ísafjarðar og Vestfjarða allra sameinist um tillögur sem geta snúið vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum héraðsins. Tillögur Í-listans í Ísafjarðarbæ eru reisulegar vörður á þeirri leið sem vonandi verður farin til að leiða sjávarbyggðir Vestfjarða á nýja braut.“

Tillögur Í-listans:

Sjávarútvegur:

1. Sérstakur byggðakvóti.
Til að koma upp fiskvinnslu á Flateyri á ný þarf að grípa til sértækra aðgerða, líkt og gert var á Þingeyri fyrir nokkrum árum. Byggðastofnun (eða ráðuneyti) tryggir veiðiheimildir, 4-500 tonn, til fimm ára gegn því að fyrirtæki komi með jafn mikið magn á móti og að aflinn verði allur unninn á Flateyri. Markmið: Að skapa fiskvinnslufólki atvinnu strax, og koma þannig í veg fyrir fjöldaflótta úr byggðarlaginu.

2. Stofnun almenningshlutafélags til kaupa á kvóta.
Bæjarráð og bæjarstjórn samþykkti í maí „... að Ísafjarðarbær ásamt einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu gangist fyrir stofnun almenningshlutafélags, sem hafi þann tilgang að kaupa veiðiheimildir og tryggja fullvinnslu sjávarafurða í sveitarfélaginu. Bæjarstjórn fól atvinnumálanefnd að vinna að málinu.

3. Frekari uppbygging þorskeldis og kræklingaeldis í fjörðum vestra.
Þorskeldi er nú þegar vaxandi í Ísafjarðardjúpi og víðar á Vestfjörðum. Efla þarf samstarf ríkisstofnana, fjárfestingasjóða og fyrirtækja á þessu sviði.

4. Áframhaldandi rekstur rækjuverksmiðju.
Rækjuverksmiðjan Miðfell er best búna verksmiðja landsins, með mikil verðmæti í tæknibúnaði, vinnslu og pökkun. Á staðnum er mikil þekking til staðar í rækjuvinnslu. Allt þetta gæti glatast á stuttum tíma.

5. Raunhæfar bætur til sveitarfélaga sem hlutfallslega missa mestan þorskkvóta.
Taka rækjuveiðar út úr kvótakerfinu, og fleiri fisktegundir, leyfa handfæraveiðar að sumrinu á ákveðnum stöðum kringum landið og styrkja atvinnuþróunarsjóði á þeim landssvæðum sem verst verða úti.

Almennar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings byggð og atvinnulífi:

1. Flutningsjöfnun.
2. Strandsiglingar: Raunhæf athugun og tillögur um styrki til strandsiglinga.
3. Endurgreiðsla námslána falli niður á skilgreindum vaxtarsvæðum.
4. Háhraðatenging kringum Vestfirði.
5. Sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.
6. Auðlindagjald renni til sveitarfélaga.

Uppbygging opinberrar þjónustu:

1. Háskóli Vestfjarða verði stofnaður árið 2008.
Í fyrstu með alhliða frumgreinar og grunnháskólanám á hug- og raunvísindasviði (að BA og BS prófi til að byrja með) en fengi með tímanum (5-10 ár) að þróast yfir á sérsvið og framhaldsrannsóknir. Mætti hugsa sér uppbyggingu náms í sama anda og nú er verið að hleypa af stokkum í Keili, þar sem áhersla yrði lögð á hinn breiða grunn til að byrja með sem nýtist nemendum í námi við aðra skóla á síðari stigum. Stuðst yrði við þá reynslu sem þegar er fengin af háskólafjarkennslu á háskólastigi hjá Stofnun fræðasetra HÍ og í Háskólasetri. Rannsóknir og kennsla gætu tekið mið af:
Umferfis og vistfræðirannsóknum t.d. á dýralífi, gróðri, sjávarbúskap, hafstraumum, loftslagi, veðri og snjóalögum.
Fiskveldis- og veiðafærarannsóknum.
Menningar- og félagsrannsóknum í tengslum við sögu svæðisins og búskaparskilyrði fyrr og nú (hvalveiðisaga Baska, Spánverjavíg, galdrabrennur, vestfirsku skáldin, Vestfirðingasögur, o.fl.).
Þá mætti hugsa sér sérstaka tækni- eða verkmenntadeild innan háskólans í samstarfi við fyrirtæki hér á staðnum.

2. Störf án staðsetningar.
Strax verði byrjað að nýta Störf án staðsetningar með Vestfirði sem sýnidæmi.

3. Núpur.
Lýðháskóli / háskóli / rannsóknasetur / meðferðarheimili sett á fót á Núpi í Dýrafirði.

4. Hjúkrunarheimili á Ísafirði.
Brýn nauðsyn fyrir 20-30 rými.

5. Orkufyrirtæki á Vestfjörðum.
Orkubú Vestfjarða eflt með stækkun starfssvæðis og hitavatnsöflun.

6. Hafrannsóknastofnun –Landhelgisgæslan.
Hafrannsóknastofnun og/eða Landhelgisgæslan flytji útgerð skipa til Ísafjarðar.

7. Þjóðskjalasafn.
Þjóðskjalasafn flytji hluta starfsemi sinnar til Vestfjarða. Athuga sérstaklega skráningu öryggismálasafns og kaldastríðsskjala auk annarra verkefna.

Nýsköpun og nýiðnaður

1. Miðstöð gagnahýsingar á Ísafirði. Skýrsla liggur fyrir í Iðnaðarráðuneyti. Vestfirðir eru utan jarðskjálfta- og eldgosasvæðis.
2. Rannsóknarmiðstöð fyrir jarðkerfisfræði á norðurhveli/Háskóli hafsins. Mælinga- og fræðasetur lofts og lagar í tengslum við Háskóla Vestfjarða.
3. Vatnsútflutningur frá Ísafirði.
4. Bjórverksmiðja á Ísafirði.
5. Þjónustumiðstöð fyrir Austur-Grænland.

Aðgerðir til lengri tíma sem tryggja og efla byggð á Vestfjörðum

1. Veiðiheimildir tryggðar í héraði, með byggðatengingum, sjálfstæðri úthlutun sveitarfélaga eða lágmarksveiðirétti strandbyggða eftir ákveðnum reglum.
2. Breyta reglum um byggðakvóta.
3. Opnun kvótakerfisins með því að taka út tegundir svo sem rækju, ýsu og steinbít, þar sem náttúrulegar aðstæðu og efnahagsleg rök stýra sókninni fremur en ekki kvótaúthlutun.
4. Samgöngubætur. Tenging Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu í eitt atvinnusvæði og klárar samgöngur við aðra landshluta.
5. Rannsóknir á möguleikum til nýtingar sjávarfalla og sjávarstrauma til orkuframleiðslu.
6. Stækkun Þingeyrarflugvallar svo nota megi hann til útflutnings á fiski."

 


Opið land Eiríks Bergmanns

Ég hvet fólk til að lesa bókina Opið land eftir Eirík Bergmann Einarsson forstöðumann Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst . http://eirikurbergmann.blog.is/blog/eirikurbergmann/      Við lestur bókarinnar kemst maður ekki hjá því að líta um öxl og rifja upp þá tíma þegar viðskiptahöft og innflutningsbann ríkti á Íslandi.  Það er ótrúlega stutt síðan einungis heildsalar máttu flytja inn sérstakar vörur eins og sælgæti eða bomsur eftir að hafa fengið innflutningsleyfið úr hendi stjórnvalda sem höfðu legið yfir umsókninni mánuðum saman til að ganga úr skugga um að viðkomandi vara skaðaði ekki innlenda framleiðslu. Nú getur fólk pantað sitt sælgæti og bomsur á netinu sitjandi inni í stofunni hjá sér.  Það var mikið gæfuspor fyrir Íslendinga þegar EES samningurinn var samþykktur árið 1994.  Engum dettur í hug í dag að efast um að samningurinn var mikið gæfuspor fyrir Íslendinga enda hafa samskipti við útlendinga frekar verið landanum til gæfu en bölvunar.  Það voru einkum frjálshyggjuöflin sem börðust lengst af gegn EES á sínum tíma, svo einkennilega sem það nú hljómar, sömu öfl og vilja í dag ekki ræða ESB, segja það ekki komið á dagskrá.  Það eru háskólarnir í landinu og aðilar í viðskiptalífinu ásamt almenningi sem halda umræðunni sem betur fer lifandi með opnum huga meðan frjálshyggjuvængur stjórnmálanna situr eftir eins og svo oft áður.


Haffært kvótakerfi?

Ég las grein í Mogganum í dag 7. ágúst eftir Þórólf Matthíasson prófessor í hagfræði, fín grein sem er sú síðasta af þremur sem hann skrifar um kvótakerfið.  Í fyrstu greininni sem hann skrifar þann 3. ágúst líkir hann kvótakerfinu við  ófrágengið og hugsanlega óhaffært skip sem fékk bráðabirgðahaffærisskírteini sem var endurnýjað nokkrum sinnum þar til Alþingi lét undan þrýstingi hagsmunaaðila og gaf út varanlegt haffærisskírteini árið 1990.   

Í næstu grein sem birtist þann 4. ágúst varpar hann fram þeirri spurningu hvort haga megi ákvörðum um hámarksafla með beri hætti en nú er gert og telur mikilvægt að taka afla-kaleikinn frá sjávarútvegsráðherra og aðskilja grunnrannsóknir annars vegar og ráðgjöf hins vegar. Hann spyr hvort það sé skynsamleg ráðstöfun að ætla Hafró bæði að rannsaka stærð fiskistofna og gefa ráð um veiðar úr þessum fiskistofnum auk tímabundins reglugerðarvalds.  Almenningur geri engan greinarmun á hvenær Hafró er í vísindaham og hvenær Hafró er í ráðgjafaham. Hann telur að skoða eigi kosti þess að skipta Hafró í þrjár stofnanir; rannsókna-, stofnstærðarmats- og veiðiráðgjafarstofnun. Með þessu ætti að vera hægt að taka atvinnuvegastimpilinn af grunnrannsóknum og stofnstærðarmati og setja akademisk markmið. 

Í greininni sem birtist síðan í Mogganum í dag bendir hann á að sú alvarlega staða þorskstofnsins sem við blasir í dag gefi stjórnmálamönnum tækifæri til að stokka upp og gera kvótakerfið almennilega haffært.  Það sé hægt að gera með margvíslegum hætti og ná mörgum markmiðum samtímis með því t.d. að taka þorskkvótaskerðinug næsta fiskveiðiárs út sem 33% fyrningu þorskveiðiheimilda.  Aðili sem í ár hafði heimild til að veiða 100 tonn af þorski fengi  heimild til að veiða 67 tonn næsta ár.  Verði síðan tilefni til að auka kvótann síðar er hægt að leigja þann viðbótarkvóta á markaðsverði og tekjurnar sem kæmu í hlut ríkisins yrðu notaðar til að efla rannsóknir á sviði haffræði og líffræði sjávar.  Orðrétt segir hann í niðurlagi greinarinnar sem birtist 7. ágúst; "Með því að koma aflahámarksákvörðuninni úr höndum stjórnmálamanna og með því að bæta stöðu þeirra sem tapa á hagræðingu i sjávarútveginum yrði "haffærni" kvótakerfisins bætt til muna.  Íbúar sjávarbyggða ættu síður á hættu að tapa ævisparnaðinum vegna kvótatilfærslna stórútgerðarmanna og minna yrði um pólitísk upphlaup vegna hámarksaflaákvarðana."

Þetta er allt að koma.

 


Áfram Grímur

Grímur Atlason bæjarstjóri i Bolungarvík er stöðugt á vaktinni, alltaf iðinn við kolann kappinn sá. Hann er bókstaflega alltaf í vinnunni.  Heppnir Bolvíkingar að fá hann Grím.  Nú er hann að blogga um olíuhreinsistöð grimur/og kallar hana réttu nafni stóriðju, ekki hátækniiðnað eins og sumir vilja kalla þetta fyrirbæri.   Hann telur upp margar góðar hugmyndir sem gætu orðið að veruleika á mjög skömmum tíma.  Annars er einkar furðuleg umræða í gangi varðandi þessa olíuhreinsistöð sem einkennist af því að menn sem hafa efasemdir um að þessi stóriðja eigi heima á Vestfjörðum eru rukkaðir í snatri um það sem þeir vilja fá í staðinn.  Ef þú vilt ekki olíuhreinsistöð hvað viltu þá í staðinn?  Þetta minnir dálítið á þá sem hlaupa sífellt í vörn fyrir kvótakerfið í sjávarútvegi; Ef þú vilt breyta kvótakerfinu þá verður þú að segja hvað þú vilt í staðinn og helst útfæra það í tæknilegum smáatriðum.  Einn bæjarstjóri á Vestfjörðum sem er nágranni Gríms hefur t.d. ítrekað sent náttúruverndarsinnum tóninn og óskað eftir tillögum frá þeim um stórátak í atvinnumálum.  Ef þeir hefðu fengið til ráðstöfunar sömu fjárupphæð og fór í að byggja upp stóriðju á Austurlandi þá væru þeir ekki lengi að skapa mörg hundruð störf á Vestfjörðum.  Hvernig væri að veita verðlaunafé þeim sem finnur út hverjir standa á bakvið olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, hverjir eru bakhjarlar, fjármögnunaraðilar og yfir höfuð hverjir eigi að semja um hvað við hvern. Mér datt þetta í hug þegar ég las umfjöllun um stöðina á eyjan.is  /eyjan.is/  Annars finnst mér best að segja það sem ég segi oft í símann við sölufólk, nei takk, hef ekki áhuga.  Og snúa sér svo að því sem skiptir raunverulega máli.


Ég var klukkuð

Á blogginu er klukkleikur í gangi og lenti ég í því að vera klukkuð af góðri vinkonu og vinnufélaga .Linda Ég tek því og læt keflið ganga.

1. Ég lít á það sem forréttindi að fá að búa á Ísafirði

2. Fiskur er sá matur sem ég vildi helst ekki vera án

3. Mér finnst gott að hlusta alein á gufuna á sunnudagsmorgnum

4. Ég játa, ég er bollafíkill og kaupi mér alltaf einn ef mé líst vel á hann, bara einn af hverri sort.

5. Blóm dafna vel á heimilinu, ég get fengið ótrúlegustu blóm til að vaxa í glugganum hjá mér.

6. Ég er alveg vonlaus í að muna brandara ef ég er beðin um að segja einn. Man alltaf þann sama

7. Ég reyni að hafa alltaf pláss í hreiðrinu fyrir börn og barnabörn

8. Ég er eiginlega alltaf í góðu skapi, enda er lífið dásamlegt

9. Ég horfi sjaldan á bíómyndir og þekki því fáar kvikmyndastjörnur

10. Mér líður vel í Samfylkingunni enda snýst þetta allt saman um jöfnuð, réttlæti og samábyrgð

Ég klukka Örnu Láru, Ylfu Mist, Tolla og Albertínu sem eiga að telja upp 10 staðreyndir um sig eins og ég gerði.

 

 


Bæjarstjórinn á Ísafirði og fjölmiðlar

Það er alveg með ólíkindum hve bæjarstjóranum á Ísafirði gengur illa að stýra fjölmiðlum.  Hann þarf sífellt að leiðrétta fréttir sem þeir flytja og einnig það sem eftir honum er haft.  Meira að segja Mogginn er líka farinn að segja ósatt og þá er nú fokið í flest skjól hjá blessuðum bæjarstjóranum. Það fer að verða fullt starf hjá manninum að fylgjast með fréttaflutningi.  Það væri kannski ráð hjá honum að fá sér vinnu á fjölmiðli svona í hjáverkum, hann gegnir ekki nema tveimur fullum stöðum nú þegar.  Í Mogganum á sunnudaginn 1. júlí var haft eftir bæjarstjóranum að;

"Það verður að segjast eins og er að kvótauppbyggingin á Flateyri var að hluta til með sértækum aðgerðum stjórnvalda þar sem Kambur fékk úthlutað ákveðnum byggðakvóta í upphafi sem varð að eignarkvóta.“

  Þetta er auðvitað stór frétt enda hefur mikill ófriður ríkt um byggðakvótann og bæjarstjórinn hefur þurft að eyða miklum tíma í að stýra því hver fær úthlutað og hve miklu á hverju ári. Einhverra hluta vegna finnst bæjarstjóranum Hinrik Kristjánsson á Flateyri bera meiri ábyrgð en aðrir þegar hann selur allt og gengur burt með einhver hundruð af milljónum og eftir standa íbúar með vandann í fanginu.  Þetta á ekki að koma neinum á óvart, það er gert ráð fyrir þessu  í lögunum/ólögunum um stjórn fiskveiða og hangir eins og sverð yfir hausum okkar á hverjum einasta degi.         

Hér er fréttin á BB um málið. 

http://bb.is/Pages/26?NewsID=102703


Komin frá Krít og Jóna Ben D-rekin

 

Þegar ég kom heim frá Krít í gær sá ég frétt á Bæjarins besta um að Jónu  Ben aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Ísafirði hefði verið sagt upp störfum og boðin staða deildarstjóra í staðinn. Uppsögnin var rökstudd sem sparnaður. Nú hefur bæjaryfirvöldum verið bent á að útreikningur þeirra hafi verið rangur og forsendur uppsagnarinnar séu því brostnar. Þegar allt er tekið inn i reikningsdæmið mun uppsögn Jónu hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir bæjarfélagið.  Þetta er afar einkennilegt mál einkum í ljósi þess að Grunnskólinn á Ísafirði er í samanburði við aðra grunnskóla á Íslandi einn ódýrasti grunnskóli landsins. Og samt á að halda áfram að spara.  Jóna er bæjarfulltrúi Í - listans og fulltrúi VG í minnihlutanum, ætli það hafi skipt máli?   Kíkið á fréttina á BB og bloggið hennar Jónu Ben sem var D-rekin.

http://jonaben.blog.is/blog/jonaben/

http://bb.is/Pages/26?NewsID=102621

 


Við mæðgurnar erum farnar til Krítar

Við mæðgurnar erum farnar til Krítar með dætur okkar. Við buðum húsbóndanum á heimilinu með í ferðina en þeir feðgar Már og Steini vildu heldur huga að grásleppunni sem svamlar hér fyrir framan eldhúsgluggann hjá Skarpa og Eyrúnu í Króknum.  Strákunum finnst svo gaman saman enda líður þeim best ef þeir eru að veiða eitthvað.  Vonandi verða þeir búnir að fylla margar tunnur þegar við stelpurnar komum aftur heim. Tengdadóttirin hugsaði sig um en ákvað svo að sleppa ferðinni í þetta sinn enda á hún von á tvíburum, flott alltaf hún Kata mín, enda innfæddur Víkari. Ólöf Davíðs vinkona mín í Borgarnesi frétti af okkur og ákvað í skyndi að bjóða sinni dóttur með í ferðina og fékk inni á sama hóteli og við.  Það gerir ferðina enn skemmtilegri enda eru Ólöf og Lísbet flottar mæðgur. Ísabella fékk að bjóða Máney vinkonu sinni og frænku með svo þetta verður örugglega fín kvennaferð.  


Kvennahlaup á ísafirði

Við mæðgurnar með dæturnar

Við mæðgurnar hlupum með dætrum okkar í dag í yndislegu verðri á Ísafirði.  Bryndís Hekla tveggja ára dótturdóttir mín ''hljóp í kerru'' með móður sinni og  sagði stöðugt; " þetta er ekki kvennahlaup, þetta er konuhlaup."  Ég sagði Svanlaugu dóttur minni að sjálf hefði hún kallað þetta Finnahlaup þegar hún hljóp í kerru á þessum aldri.  Dætur mínar hlupu báðar með mér á árum áður, fyrst í vagni svo kerru og nú á tveimur fótum. Núna hleypur barnabarnið í kerrunni sinni með mömmu sinni.  Skemmtilegt þetta með endurtekninguna. Kannski á Ísabella Ósk eftir að hlaupa með sína dóttur í vagni, kerru og svo saman á sínum tveimur.  Vonandi hlaupum við þá allar saman eins og nú. Góður dagur!


Strax byrjuð að efna kosningaloforð

Nýja velferðarstjórnin er strax byrjuð að efna kosningaloforð Samfylkingarinnar.  Í aðdraganda kosninga lagði Samfylgingin þunga áherslu á að bæta stöðu  barna og ungmenna enda er stuðningur við barnafjölskyldur er mun lakari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Það er því  sannarlega tími til kominn að jafna þennan mun. Ekki treysti Einar Oddur sér til að styðja þetta málefni og talaði um að vera ábyrgur í fjármálum.  Hvað var maðurinn að hugsa þegar hann samþykkti eftirlaunafrumvarpið?

Hér koma tillögurnar:    

Tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára aðgerðaáætlun

í þágu barna og ungmenna dreift á Alþingi í dag.

 

Ríkisstjórnin hefur í samræmi við stefnuyfirlýsingu frá 23. maí 2007 samþykkt að félagsmálaráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2007 - 2011, til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

 

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á kjörtímabilinu og með þingsályktunartillögunni er lögð fram til umfjöllunar á Alþingi heildstæð fjögurra ára aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna hér á landi.

 

Meginatriði aðgerðaáætlunarinnar eru eftirfarandi:

 

  • - Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga skulu mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði meðal annars styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda eða fötlunar.

 

  • - Flutt verður frumvarp á kjörtímabilinu um lengingu fæðingarorlofs í áföngum þannig að það verði 12 mánuðir þegar það er komið að fullu til framkvæmdar.

 

  • - Afkoma barnafjölskyldna verður bætt, meðal annars með því að barnabætur til tekjulágra fjölskyldna verði hækkaðar; tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna; nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum; stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra er búa við veikar fjárhagslegar aðstæður

 

  • - Sérstaklega verður hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu.

 

  • - Aukinn verði stuðningur við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik.

 

  • - Það verður forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar samkvæmt aðgerðaáætluninni að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss (BUGL) og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þegar í stað verður gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði.

 

  • - Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin með því að koma á fót meðferð utan stofnana, á vettvangi fjölskyldunnar og nánasta umhverfi barnsins.

 

  • - Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.

 

  • - Áhersla verður lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.

 

  • - Forvarnastarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og veittur verði stuðningur við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.

 

  • - Skipuð verður nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.

 

Þingsályktunartillagan er unnin af starfshópi ráðherra félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála.

 

Samráðshópur fulltrúa framangreindra ráðherra, undir forystu félagsmálaráðherra, mun samræma og fylgja eftir þeim aðgerðum sem kveðið er á um í áætluninni.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband