23.4.2009 | 18:30
Kjósum endurreisn Íslands
Ég hvet alla til að lesa þessa grein um Evrópusambandið eftir Baldur Þórhallsson prófessor í Stjónmálafræði.
Endurreisn samfélags okkar byggir á umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Lífskjör okkar eru í húfi. Hægt er að hefja undirbúning að upptöku evru samhliða samningaviðræðum um aðild að ESB. Enginn annar kostur stendur til boða varðandi gjaldmiðlaskipti. Það hefur margoft komið skýrt fram í máli forystumanna ESB. Þeir eru hins vegar tilbúnir að semja við okkur um inngöngu á 9 til 12 mánuðum. Það þýðir að hægt er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning á næsta ári. Þá getur hver og einn metið kosti og galla ESB aðildar.
Það er mikilvægt því ESB býður upp á varanlegar sérlausir í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamálum í aðildarsamningum. Það sýna samningar Norðurlandanna og Maltverja. Kjósi þjóðin aðild er hægt að tengja krónuna við evru fáum vikum eftir að gengið er í sambandið. Planið getur ekki verið skýrara. Valið stendur á milli þessarar áætlunar eða óbreytts ástands innvafins í útópíu töfralausna.
Mörg heimili og flest fyrirtæki eru í nauðvörn. Umsókn um aðild ásamt yfirlýsingu um að stefnt verði að tengingu krónunnar við evru myndu þegar í stað styrkja efnahagslífið. Íslensk fyrirtæki fengju greiðari aðgang að erlendu lánsfé. Vextir heimila og fyrirtækja myndu lækka. Fyrirtæki gætu hafið enduruppbyggingu og fjölgað störfum. Gengi krónunnar er líklegt til að styrkjast og verða stöðugra þar til krónan verður tengd evrunni. Þetta þýðir minni verðbólgu, lægra vöruverð - bætt lífskjör.
Við getum staðið utan ESB og notað krónu áfram. Það mun hins vegar þýða áframhald launalækkana, fækkun starfa, viðskiptahöft og skömmtun gjaldeyris. Við Íslendingar höfum sjaldan eða aldrei haft eins skýran valkost í alþingiskosningum. Á laugardaginn stendur valið á milli farsællar framtíðarinnar meðal þeirra þjóða sem í fremstu röð standa eða heimatilbúinna hafta.
Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði og skipar 6. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavík norður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.