7.12.2007 | 14:58
Opinber viðurkenning á óþægilegum staðreyndum
Þá höfum við það, svart á hvítu. Samgönguráðherra, Kristján Möller hefur viðurkennt opinberlega ástandið í vegamálum á Vestfjörðum og sagt sannleikann varðandi samgöngumál á svæðinu. Hingað til hafa þeir sem vakið hafa athygli á slæmu ástandi vega á Vestfjörðum verið kallaðir nöfnum. Niðurrifsöfl er t.d eitt nafnið sem forystumenn og konur í Sjálfstæðisflokknum á Ísafirði hafa notað yfir fólk sem vill sækja þann sjálfsagða rétt okkar að sitja við sama borð og aðrir landsmann hvað varðar samgöngumál.
Það er best að ég nefni þetta fólk sínum réttu nöfnum úr því ég er farin af stað á annað borð. Þau heita Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar í sama bæ og ekki ætla ég að gleyma einu nafni til viðbótar sem er Sturla Böðvarsson fyrrverandi ráðherra samgöngumála og núverandi þingmaður í Norðvestur kjördæmi. Þetta fólk hefur verið ötult við að skrifa greinar og tala í fjölmiðlum um það mikla þrekvirki sem samgönguráðherra á að hafa unnið í vegamálum á Vestfjörðum. Setning eins og "mikið hefur áunnist í vegamálum" hefur hjakkað eins og rispa í geisladiski allt síðasta kjörtímabil. Ef einhverjir hafa mótmælt og bent á ófremdarástand í samgöngumálum hafa þeir eins og áður sagði verið kallaðir nöfnum og þeim jafnvel hótað "ekki eins góðu samstarfi við ráðuneytið ef þeir kjósi nú ekki rétt" samanber grein sem Sturla skrifaði fyrir síðustu alþingiskosningar.
Ætla Birna og Halldór að kalla nýjan samgönguráðherra nöfnum nú? Hann viðurkenndi jú á Alþingi fimmtudaginn 6. desember að verstu vegir landsins væru á Vestfjörðum, í Barðastrandasýslu þar sem nú á að ráðast í vegaframkvæmdir.
Athugasemdir
Ert þú semsagt ósammála því að mikið hafi áunnist. Þó svo að enn sé mikið eftir þá hefur samt mikið áunnist og það er flestum ljóst. það hafa verið framkvæmdir nánast stanslaust á vestfjörðum frá því að Sturla tók við. Ég efa að Kristján Möller eigi eftir að láta framkvæma eins mikið í sinni valda tíð hér í okkar kjördæmi. Ég vona hins vegar að ég hafi rangt fyrir mér um það, því þó að mikið hafi gerst í okkar vegamálum þá er enn mikið eftir.
Ingólfur H Þorleifsson, 7.12.2007 kl. 15:32
Já svo sannarlega er ég ósammála þér, Birnu og Halldóri. Miðað við þróun í samgöngumálum á Íslandi hefur okkar svæði setið eftir. Auðvitað hefur eitthvað mjakast, Þó það nú væri. Kristján Möller er enn óskrifað blað hjá ykkur Sjálfstæðismönnum, þess vegna skil ég ekki hvað þú átt við. Ég ætla ekki að gera honum upp neinar ákvarðanir og ekki þakka honum neitt heldur. Ég vona bara að hann standi sig í vinnunni, það skiptir máli. Það er einmitt þetta andrúmsloft sem ég er að tala um sem þið Sjálfstæðismenn andið að ykkur, "fyrst kemur flokkurinn og svo kemur byggðin mín."
Ps. þú gleymdir einu og reyndar ég líka. að rifja upp setninguna; "fyrir það ber að þakka" #$"%&!"#$%!"#$$%"
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 7.12.2007 kl. 15:53
Þarf eitthvað að VIÐURKENNA ömurlegt ástand vega hér á Vestfjörðum?
Ég eyðilagði bílinn minn nánast á Ströndunum um daginn. Dekkin mín nýju er ÓNÝT! ÓNÝT!!!!
Óþolandi. Mér er sama hvað áunnist hefur. Það er bara ekki nóg. Lágmark er að fylla upp í stærstu holurnar svo að maður þurfi ekki nýjan umgang í hvert andskotans einasta skipti sem maður ætlar að bregða ´ser í kaupstaðinn.
Ylfa Mist Helgadóttir, 7.12.2007 kl. 17:51
Undarleg yfirlýsing frá samgönguráðherra í fréttum á stöð2 áðan að hann hafi ekki not fyrir 2,5 milljarða......og ætli því að geyma þá?....hví fara þeir ekki hingað Vestur....tja maður spyr sig?
Þorleifur Ágústsson, 7.12.2007 kl. 18:42
Hann ætlar sjálfsagt að geyma þennan pening til að nota í norðaustur kjördæmi.
Varðandi vegina hér fyrir vestan þá var samgönguáætlunin sem var í gildi þegar Sturla tók við þannig að það hefði ekki verið komið bundið slitlag til Reykjavíkur fyrr en 2015. En nú stefnir í að það verði komið haustið 2008. Miðað við þá hestatroðninga sem voru þegar Sturla tók við þá hefur mikið verið gert í hans ráðherratíð, og það veit Bryndís Friðgeirsdóttir þó svo hún kjósi að láta sem svo sé ekki. Hún sat væntanlega sjálf fund á hótel Ísafirði árið 2002 þar sem samgöngumál voru rædd og Halldór Halldórsson lýsti því að yngsti sonur hans yrði búinn að vera með bílpróf í eitt ár þegar slitlag yrði komið til Reykjavíkur miðað við 2015 áætlunina. Þessu breytti Sturla.
Varðandi dekkin hennar Ylfu þá keyrir maður eftir aðstæðum og þannig endast dekkin.
Ingólfur H Þorleifsson, 8.12.2007 kl. 09:56
Rétt hjá þér Tolli. Við eigum að gera kröfu um að fá peningana vestur. Óþarfi að láta þá liggja á ís þegar þörf er fyrir þá á Vestfjörðum.
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 9.12.2007 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.