Tillögur til að snúa vörn í sókn í byggðamálum

Bæjarfulltrúar Í listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafa lagt fram vandaðar tillögur sem eiga að blása til sóknar í atvinnulífi á svæðinu. Þetta eru raunhæfar tillögur unnar af samhentum hópi sem stöðugt stendur vaktina.  Þó Í listinn sem skipaður er fulltrúum Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra sé í minnihluta þá virðast fulltrúar þeirra í nefndum og stjórnum bæjarins sífellt hafa frumkvæði við að leggja á ráðin varðandi sóknarfæri sem eru í sjónmáli.  

Hér kemur frétt sem birtist á BB vefnum þann 6. september sl. varðandi  tillögur Í listans: 

 

"Tillögur til að snúa vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum

Nauðsynlegt er að íbúar Ísafjarðar og Vestfjarða allra sameinist um tillögur sem geta snúið vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum héraðsins. Þetta segja bæjarfulltrúar Í-listans í Ísafjarðarbæ, en þeir og bæjarmálaráð flokksins hafa í sumar lagt fram tillögur í atvinnumálum sem hafa verið leiðarstef fulltrúa listans í bæjarráði og nefndum Ísafjarðarbæjar síðustu mánuðina. Ennfremur hafa þessar tillögur verið lagðar fram í viðræðum við ráðherra og þingmenn á undanförnum vikum og segja fulltrúarnir að áfram verði unnið að framgangi tillagnanna á þeim vettvangi.

Tillögur Í-listans ná til sjávarútvegs, uppbyggingu opinberrar þjónustu, nýsköpunar og nýiðnaðar og almennra aðgerða stjórnvalda til stuðnings byggð og atvinnulífi, auk þess sem lagðar eru til aðgerðir til lengri tíma sem eiga að tryggja og efla byggð á Vestfjörðum. Sem dæmi má nefna tillögu um að Háskóli Vestfjarða verði stofnaður árið 2008 og aðra um að endurgreiðsla námslána falli niður á skilgreindum vaxtarsvæðum. Aðrar tillögur lúta til dæmis að frekari uppbyggingu þorskeldis og kræklingaeldis í fjörðum hér vestra, að strax verði byrjað að nýta Störf án staðsetningar með Vestfirði sem sýnidæmi, Orkubú Vestfjarða verði eflt með stækkun starfssvæðis og hitavatnsöflun og að Hafrannsóknastofnun og/eða Landhelgisgæslan flytji útgerð skipa til Ísafjarðar.

Í tilkynningu Í-listans segir: „Það er kunnara en frá þurfi að segja, að alvarleg tíðindi hafa orðið í atvinnumálum hér vestra á síðustu mánuðum. Lokun sjávarútvegsfyrirtækja og ákvörðun um þriðjungs niðurskurð á þorskveiðum ber þar hæst. Því er nauðsynlegt að íbúar Ísafjarðar og Vestfjarða allra sameinist um tillögur sem geta snúið vörn í sókn í atvinnu- og byggðamálum héraðsins. Tillögur Í-listans í Ísafjarðarbæ eru reisulegar vörður á þeirri leið sem vonandi verður farin til að leiða sjávarbyggðir Vestfjarða á nýja braut.“

Tillögur Í-listans:

Sjávarútvegur:

1. Sérstakur byggðakvóti.
Til að koma upp fiskvinnslu á Flateyri á ný þarf að grípa til sértækra aðgerða, líkt og gert var á Þingeyri fyrir nokkrum árum. Byggðastofnun (eða ráðuneyti) tryggir veiðiheimildir, 4-500 tonn, til fimm ára gegn því að fyrirtæki komi með jafn mikið magn á móti og að aflinn verði allur unninn á Flateyri. Markmið: Að skapa fiskvinnslufólki atvinnu strax, og koma þannig í veg fyrir fjöldaflótta úr byggðarlaginu.

2. Stofnun almenningshlutafélags til kaupa á kvóta.
Bæjarráð og bæjarstjórn samþykkti í maí „... að Ísafjarðarbær ásamt einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu gangist fyrir stofnun almenningshlutafélags, sem hafi þann tilgang að kaupa veiðiheimildir og tryggja fullvinnslu sjávarafurða í sveitarfélaginu. Bæjarstjórn fól atvinnumálanefnd að vinna að málinu.

3. Frekari uppbygging þorskeldis og kræklingaeldis í fjörðum vestra.
Þorskeldi er nú þegar vaxandi í Ísafjarðardjúpi og víðar á Vestfjörðum. Efla þarf samstarf ríkisstofnana, fjárfestingasjóða og fyrirtækja á þessu sviði.

4. Áframhaldandi rekstur rækjuverksmiðju.
Rækjuverksmiðjan Miðfell er best búna verksmiðja landsins, með mikil verðmæti í tæknibúnaði, vinnslu og pökkun. Á staðnum er mikil þekking til staðar í rækjuvinnslu. Allt þetta gæti glatast á stuttum tíma.

5. Raunhæfar bætur til sveitarfélaga sem hlutfallslega missa mestan þorskkvóta.
Taka rækjuveiðar út úr kvótakerfinu, og fleiri fisktegundir, leyfa handfæraveiðar að sumrinu á ákveðnum stöðum kringum landið og styrkja atvinnuþróunarsjóði á þeim landssvæðum sem verst verða úti.

Almennar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings byggð og atvinnulífi:

1. Flutningsjöfnun.
2. Strandsiglingar: Raunhæf athugun og tillögur um styrki til strandsiglinga.
3. Endurgreiðsla námslána falli niður á skilgreindum vaxtarsvæðum.
4. Háhraðatenging kringum Vestfirði.
5. Sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.
6. Auðlindagjald renni til sveitarfélaga.

Uppbygging opinberrar þjónustu:

1. Háskóli Vestfjarða verði stofnaður árið 2008.
Í fyrstu með alhliða frumgreinar og grunnháskólanám á hug- og raunvísindasviði (að BA og BS prófi til að byrja með) en fengi með tímanum (5-10 ár) að þróast yfir á sérsvið og framhaldsrannsóknir. Mætti hugsa sér uppbyggingu náms í sama anda og nú er verið að hleypa af stokkum í Keili, þar sem áhersla yrði lögð á hinn breiða grunn til að byrja með sem nýtist nemendum í námi við aðra skóla á síðari stigum. Stuðst yrði við þá reynslu sem þegar er fengin af háskólafjarkennslu á háskólastigi hjá Stofnun fræðasetra HÍ og í Háskólasetri. Rannsóknir og kennsla gætu tekið mið af:
Umferfis og vistfræðirannsóknum t.d. á dýralífi, gróðri, sjávarbúskap, hafstraumum, loftslagi, veðri og snjóalögum.
Fiskveldis- og veiðafærarannsóknum.
Menningar- og félagsrannsóknum í tengslum við sögu svæðisins og búskaparskilyrði fyrr og nú (hvalveiðisaga Baska, Spánverjavíg, galdrabrennur, vestfirsku skáldin, Vestfirðingasögur, o.fl.).
Þá mætti hugsa sér sérstaka tækni- eða verkmenntadeild innan háskólans í samstarfi við fyrirtæki hér á staðnum.

2. Störf án staðsetningar.
Strax verði byrjað að nýta Störf án staðsetningar með Vestfirði sem sýnidæmi.

3. Núpur.
Lýðháskóli / háskóli / rannsóknasetur / meðferðarheimili sett á fót á Núpi í Dýrafirði.

4. Hjúkrunarheimili á Ísafirði.
Brýn nauðsyn fyrir 20-30 rými.

5. Orkufyrirtæki á Vestfjörðum.
Orkubú Vestfjarða eflt með stækkun starfssvæðis og hitavatnsöflun.

6. Hafrannsóknastofnun –Landhelgisgæslan.
Hafrannsóknastofnun og/eða Landhelgisgæslan flytji útgerð skipa til Ísafjarðar.

7. Þjóðskjalasafn.
Þjóðskjalasafn flytji hluta starfsemi sinnar til Vestfjarða. Athuga sérstaklega skráningu öryggismálasafns og kaldastríðsskjala auk annarra verkefna.

Nýsköpun og nýiðnaður

1. Miðstöð gagnahýsingar á Ísafirði. Skýrsla liggur fyrir í Iðnaðarráðuneyti. Vestfirðir eru utan jarðskjálfta- og eldgosasvæðis.
2. Rannsóknarmiðstöð fyrir jarðkerfisfræði á norðurhveli/Háskóli hafsins. Mælinga- og fræðasetur lofts og lagar í tengslum við Háskóla Vestfjarða.
3. Vatnsútflutningur frá Ísafirði.
4. Bjórverksmiðja á Ísafirði.
5. Þjónustumiðstöð fyrir Austur-Grænland.

Aðgerðir til lengri tíma sem tryggja og efla byggð á Vestfjörðum

1. Veiðiheimildir tryggðar í héraði, með byggðatengingum, sjálfstæðri úthlutun sveitarfélaga eða lágmarksveiðirétti strandbyggða eftir ákveðnum reglum.
2. Breyta reglum um byggðakvóta.
3. Opnun kvótakerfisins með því að taka út tegundir svo sem rækju, ýsu og steinbít, þar sem náttúrulegar aðstæðu og efnahagsleg rök stýra sókninni fremur en ekki kvótaúthlutun.
4. Samgöngubætur. Tenging Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu í eitt atvinnusvæði og klárar samgöngur við aðra landshluta.
5. Rannsóknir á möguleikum til nýtingar sjávarfalla og sjávarstrauma til orkuframleiðslu.
6. Stækkun Þingeyrarflugvallar svo nota megi hann til útflutnings á fiski."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Birti BB alla þessa romsu ? Hlýtur að vera copy paste ! Það gengur ekki að koma með margar hugmyndir fyrir Núp. Sameinast um eina hugmynd, gera að tilögu og klára það dæmi. Minni á orð Menntamálaráðherra á Patreksfirði þegar framhaldsskóladeildin var opnuð þar. Heimamenn unnu allan undirbúning og settu raunhæfar tillögur á borð ráðherra . Sem ráðherra svo samþykkti. Og allt gekk upp. Þetta þurfa norðanmenn að gera líka.

Guðrún (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 14:17

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Úff.... viðurkenni að ég nennti engan veginn að lesa þetta allt. En kvitta samt fyrir mig. Skrifaðu nú um eitthvað úr þínu viðburðaríka lífi elskan. Sjáumst vonandi eitthvað hádegið.

Ylfa Mist Helgadóttir, 9.9.2007 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband