8.6.2007 | 21:48
Strax byrjuð að efna kosningaloforð
Nýja velferðarstjórnin er strax byrjuð að efna kosningaloforð Samfylkingarinnar. Í aðdraganda kosninga lagði Samfylgingin þunga áherslu á að bæta stöðu barna og ungmenna enda er stuðningur við barnafjölskyldur er mun lakari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Það er því sannarlega tími til kominn að jafna þennan mun. Ekki treysti Einar Oddur sér til að styðja þetta málefni og talaði um að vera ábyrgur í fjármálum. Hvað var maðurinn að hugsa þegar hann samþykkti eftirlaunafrumvarpið?
Hér koma tillögurnar:
Tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára aðgerðaáætlun
í þágu barna og ungmenna dreift á Alþingi í dag.
Ríkisstjórnin hefur í samræmi við stefnuyfirlýsingu frá 23. maí 2007 samþykkt að félagsmálaráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2007 - 2011, til að styrkja stöðu barna og ungmenna.
Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á kjörtímabilinu og með þingsályktunartillögunni er lögð fram til umfjöllunar á Alþingi heildstæð fjögurra ára aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna hér á landi.
Meginatriði aðgerðaáætlunarinnar eru eftirfarandi:
- - Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga skulu mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði meðal annars styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda eða fötlunar.
- - Flutt verður frumvarp á kjörtímabilinu um lengingu fæðingarorlofs í áföngum þannig að það verði 12 mánuðir þegar það er komið að fullu til framkvæmdar.
- - Afkoma barnafjölskyldna verður bætt, meðal annars með því að barnabætur til tekjulágra fjölskyldna verði hækkaðar; tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna; nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum; stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra er búa við veikar fjárhagslegar aðstæður
- - Sérstaklega verður hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu.
- - Aukinn verði stuðningur við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik.
- - Það verður forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar samkvæmt aðgerðaáætluninni að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss (BUGL) og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þegar í stað verður gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði.
- - Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin með því að koma á fót meðferð utan stofnana, á vettvangi fjölskyldunnar og nánasta umhverfi barnsins.
- - Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.
- - Áhersla verður lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.
- - Forvarnastarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og veittur verði stuðningur við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.
- - Skipuð verður nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.
Þingsályktunartillagan er unnin af starfshópi ráðherra félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála.
Samráðshópur fulltrúa framangreindra ráðherra, undir forystu félagsmálaráðherra, mun samræma og fylgja eftir þeim aðgerðum sem kveðið er á um í áætluninni.
Athugasemdir
Helduru að það verði ljúft líf eftir x ár !! Þá er bara að fara að halda áfram að fjölga mannkyninu,- eða kvenkyninu eins og Steinvör systir gerði í dag,- 12. júní,- bætti við semsagt,- annarri dömu,- daman.....
ÞHelga (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 22:01
Já glæsilegt Bryndís og fagna ég svo sannarlega með þér.
Herdís Sigurjónsdóttir, 13.6.2007 kl. 11:35
Þetta er flott og vonandi gengur þetta eftir en maður hefur svo sem séð margt sett á lista áður. Ég er sérstaklega ánægður með hvað á gera í sambandi við BUGL og stuðning við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. Og svo má ekki gleyma aðstandendum þeirra, sem er ekki síður mikilvægt.
PS. Þið Herdís eruð væntanlega búnar að stilla saman strengi sem samherjar í pólitík.
Marinó Már Marinósson, 15.6.2007 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.