Málþing á Ísafirði um olíuhreinsistöð

                                                                                                                                                                                                                      Kalifornía

Ég fór á málþing um stóriðju á Vestfjörðum í dag. Máþingið var haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og kostað af Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Þau erindi sem flutt voru á þinginu voru um margt fróðleg þó álitamálin séu mörg og ósvöruðum spurningum hafi fjölgað. Það kom þó klárlega fram að olíuhreinsistöð er mengandi stóriðja og losunarheimildirnar rúmast ekki innan þeirra skuldbindinga sem Íslendingar hafa tekið á sig á alþjóðavettvangi.  Þá er ónefnd sú sjónmengun sem þessi eiturspúandi stóriðja veldur.

Á þinginu var m.a varpað fram spurningum um hvort magn og gæði færu alltaf saman, hvort það væri endilega fjöldinn sem skapaði gæðin þegar kemur að spurningu um búsetu. Flestir voru þó sammála um að Vestfirðir hefðu setið eftir hvað varðar þróun búsetuskilyrða þó ekki væru fundarmenn á einu máli um að olíuhreinsistöð væri það sem þyrfti til að viðhalda blómlegu mannlífi á Vestfjörðum.

Fram kom í máli Karls Benediktssonar landfræðings að innleiða þyrfti nýja hugsun í atvinnuþróun sem byggðist á því að meta þau störf sem verða til út frá hinni þöglu þekkingu sem er hin svæðisbundna þekking sem er mjög verðmæt þegar kemur að fjölgun atvinnutækifæra.

  

Flest erindin á málþinginu voru upplýsandi og fundargestir fengu tækifæri til að spyrja spurninga og velta vöngum. Einn aðilinn sem reyndar átti að vera í aðalhlutverki, Ólafur Egilsson stjórnarformaður Íslensks hátækniiðnaðar gat þó engu svarað um hverjir hefðu áhuga á að reisa olíuhreinsistöð en sagði þó að olían kæmi frá Rússlandi og yrði seld til Bandaríkjanna.

Arnarfjörður-1

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir þessa færslu, Bryndís. Ég bíð spennt eftir að sjá einhvers staðar ítarlega umfjöllun um fundinn, hver sagði hvað og hvað kom fram... og hvað ekki.

En þangað til má ég til með að vitna í orð Ólafs Egilssonar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann sagði m.a.: "Sjónmengun, það er jú smekksatriði. Sumir hafa talað um að Pompidou-listasafnið í París líkist olíuhreinsistöð. Þetta yrði tilbreyting. En í einum dal á Vestfjörðum, í víðáttu Vestfjarða, þar mun það ekki skipta miklu máli neikvætt." (Ég hef heimsótt Pompidou-safnið í París - það er algjört skrímsli.)

Þarna finnst mér Ólafur tala niður til Vestfirðinga. Honum finnst bara allt í lagi að fórna Vestfjörðunum, því þarna er ekki verið að tala bara um einn dal heldur marga. Til dæmis dalina fyrir utan Hvestudal. Íbúar í næsta nágrenni þurfa að búa við stöðuga sjónmengun, hljóðmengun og eiturgufur frá olíuhreinsistöðinni. Hið undurfagra útsýni sem blasir við þegar maður kemur niður af Hrafnsfjarðarheiði verður með ljótu, reykspúandi öri. Útsýni frá Hrafnseyri mengað.

Ólafur Egilsson lét fleiri gullkorn falla í téðu fréttaviðtali. Hann sagði einnig: "Áreiðanlega eiga margir eftir að gera sér ferð í skammdeginu til að sjá ljósadýrðina í slíkri stöð þegar hún er risin". Ég trúði ekki mínum eigin eyrum, stoppaði, spólaði til baka, hlustaði aftur. Jú, hann sagði þetta.

Mín fyrstu viðbrögð voru að skella upp úr. Ég sá fyrir mér bílalestir yfir Hálfdán og Hrafnseyrarheiði í vetrarfærð og myrkri, fólk að brjóta sér leið yfir fjallvegina til að góna á ljósum prýdda olíuhreinsistöð! Ólafur gleymdi alveg að bæta því við að í leiðinni myndi fólkið fá að hlýða í andakt á hávaðamengun verksmiðjunnar í kvöldkyrrðinni og anda að sér unaðslegum, eitruðum olíufnyk sem legði inn eða út fjörðinn eftir vindáttum - upp dali og fjallshlíðar og skilja þar eftir sig eiturgufur sem drepa allt kvikt.

Hvað heldur maðurinn eiginlega að Vestfirðingar séu? Hálfvitar? Þá verður hann fyrir miklum vonbrigðum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.2.2008 kl. 00:42

2 identicon

Sæl Bryndís

Ég var þess heiðurs hljótandi að þú kenndir mér í grunnskóla í nokkur ár og lærði ég marg af þér og hjá þér. Hins vegar er ljóst að við erum ekki sammála í þessari umræðu.

Ég var einn af þeim fjölmörgu sem voru á þessum fundi í gær í Edinborgarhúsinu. Ég var í gær að lýsa því fyrir góðum manni sem ég þekki hvernig þessi fundur var fyrir mér og ég lýsti honum svona.

Ef þetta hefði verið úrslitaleikur í fótbolta þá hefði þurft að grípa til framlengingar eftir 0-0 90 mín. leik. Bæði liðin voru að spila fínan bolta og fengu nokkur upplögð færi án þess að skora. Síðan í framlengingunni komu inn á nýjir menn sem voru næstum því þriðja liðið og vissu ekki í hvort markið þeir áttu að skora og gerðu leikinn svolítið spennandi fyrir vikið. Stuðningsmenn liðanna beggja voru báðir mjög ánægðir eftir leikinn báðum fannst þeir hafa unnið og að þeirra lið hefði átt betri færi heldur enn andstæðingurinn. Síðan var leikurinn flautaður af án þess að taka vítaspyrnur og liðin sent heim til að æfa sig betur fyrir annan leik.

Ég sem stuðningsmaður Olíuhreinsistöðvar liðsins fannst margt merkilegt sem kom þarna fram og sérstaklega fannst mér merkilegt þegar Bergur hjá Landvernd talaði um hugsanlega umskipunarhöfn sem valkost við Olíuhreinsistöð.  Hvert er maðurinn að fara í þeim efnum. Það ætti að benda honum á að lesa nýlega skýrslu sem unninn var af einum varamanninum í leiknum Jóni Þorvaldi Heiðarssyni hjá RHA.  Þar kemur eftirfarandi fram m.a. "Skip sem siglir um Íshafið og brennir olíu mun óhjákvæmilega sleppa reyknum úr
vélum sínum út í umhverfið. Með öðrum orðum mun reykinn frá skipunum
leggja yfir hið hvíta Norðurskaut. Það hefur verið bent á að það sé ekki heppilegt
og mengun á þessum slóðum sé mun alvarlegra mál en þar sem er heitara og
enginn ís. Jafnvel hefur verið sagt að mengun sem þessi komi einfaldlega ekki til
 greina á þessu landsvæði" Heimil: http://www.rha.is/skrar/File/Rannsoknir/2007/Skyrsla_lok.pdf 

Ég skil ekki hvaða rosalega áhuga allir hafa á því að vita hverjir eru þessir aðilar sem standa fjárhagslega á bakvið hugmyndina og ætla jafnvel að reisa hana.  Ég sé ekki hvað það breytir í stöðunni núna.  Við vitum að það þarf gríðarlegt fjármagn í þetta verkefni og miðað við þær tölur sem lagðar voru fram í gær mesta fjármagn í eitt einstakt verkefni á Íslandi.  Ég myndi aldrei vilja láta nafn míns getið í svona ferli fyrr en búið væri að tryggja aðkomu þeirra sem þurfa að koma að og þannig að ljóst sé að ekki væri hægt að baka út of auðveldlega. Við sáum t.d. núna eru hugmyndir um byggingu vatnsverksmiðju hér á Ísafirði. Við fengum ekkert að vita hverjir það væru fyrr en undirritaðir voru samningar um samstarf á milli þeirra og Ísafjarðarbæjar. Svona er bara viðskiptalífið og við verðum að spila eftir þeirra reglum hvað varðar svona upplýsingaflæði.  

Torfi Jó (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband