Færsluflokkur: Bloggar

Ingibjörg Sólrún er ekki Framsóknarflokkur

 

Staksteinar Morgunblaðsins eru alveg bit á því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra skuli ekki spyrja Sjálfstæðisflokkinn um leyfi til að tjá skoðun sína í Evrópumálum. Halda staksteinar virkilega að ISG sé einhver Framsóknaflokkur? Reyndar hafa staksteinar verið uppteknir af þessari konu um árabil. Þeir gera sér sennilega grein fyrir mætti hennar og megin og líta því á hana sem hættuleigan pólitískan andstæðing Sjálfstæðisflokksins sem hún auðvitað er. 

Morgunbaðið lét enn eina ferðina skína í íhaldshornið á sér í föstudagsblaðinu þegar stakseinar blaðsins kvörtuðu yfir því að ISG hefði sagt að"íslensk stjórnvöld ættu að kappkosta að haga málum á þann hátt að Ísland uppfylli öll skilyrði ef og þegar til þess komi að stjórnvöld velji að stíga það skref að sækja um aðild að ESB." Staksteinum finnst hún ekki standa við gerða samninga með því að segja þetta vegna þess að þetta stendur ekki í stjórnarsáttmálanum.

Nú á það ekki að koma neinum á óvart hver skoðun ISG er í Evrópumálum. Hún sér að sjálfsögðu enga ástæðu til að breyta skoðun sinni í þeim málum hvað þá liggja á þeim þó hún sé í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Af hverju ætti hún að gera það?

Reyndar er skemmtilegt að heyra í flölmiðlum af ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar sem blossar upp af og til. Á þetta einkum við þegar Samfylkingarþingmenn tjá sig um virkjanamál, stóriðjumál og Evrópumál.  Þegar skoðanir þeirra fara ekki saman við skoðun Sjálfstæðisflokksins þá er talað um ágreining á stjórnarheimilinu. Af hverju skildi nú þetta vera svona? Jú við erum svo vön að hafa Framsóknarflokkinn með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og báðir alltaf á einu máli eins og um einn flokk væri að ræða.

Ég vona svo sannarlega að ég fái oft að heyra um þennan ágreining í ríkisstjórn, því þá veit ég að mitt fólk er að standa sig.


Erindin um olíuhreinsistöð komin inn

Erindin sem flutt voru í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og Bíldudal um olíuhreinsistöð eru komin inn á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga.  Skoðið. http://fjordungssamband.is/fv/stadarvalsverkefni/malthing_og_kynningarfundur/

Bendi sérstaklega á erindi Karls Benediktssonar landfræðingi sem heitir Frá þorski til þekkingar og erindi Bergs Sigurðssonar framkvæmdarstjóra Landverndar sem heitir Olíuhreinsistöð-umhverfisálag og spurningar sem vakna. Svo þarf að sjálfsögðu að skoða það sem Árni Finnsson segir um náttúruvernd. Annars eru öll erindin athyglisverð.

 

 

 

 


Málþing á Ísafirði um olíuhreinsistöð

                                                                                                                                                                                                                      Kalifornía

Ég fór á málþing um stóriðju á Vestfjörðum í dag. Máþingið var haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og kostað af Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Þau erindi sem flutt voru á þinginu voru um margt fróðleg þó álitamálin séu mörg og ósvöruðum spurningum hafi fjölgað. Það kom þó klárlega fram að olíuhreinsistöð er mengandi stóriðja og losunarheimildirnar rúmast ekki innan þeirra skuldbindinga sem Íslendingar hafa tekið á sig á alþjóðavettvangi.  Þá er ónefnd sú sjónmengun sem þessi eiturspúandi stóriðja veldur.

Á þinginu var m.a varpað fram spurningum um hvort magn og gæði færu alltaf saman, hvort það væri endilega fjöldinn sem skapaði gæðin þegar kemur að spurningu um búsetu. Flestir voru þó sammála um að Vestfirðir hefðu setið eftir hvað varðar þróun búsetuskilyrða þó ekki væru fundarmenn á einu máli um að olíuhreinsistöð væri það sem þyrfti til að viðhalda blómlegu mannlífi á Vestfjörðum.

Fram kom í máli Karls Benediktssonar landfræðings að innleiða þyrfti nýja hugsun í atvinnuþróun sem byggðist á því að meta þau störf sem verða til út frá hinni þöglu þekkingu sem er hin svæðisbundna þekking sem er mjög verðmæt þegar kemur að fjölgun atvinnutækifæra.

  

Flest erindin á málþinginu voru upplýsandi og fundargestir fengu tækifæri til að spyrja spurninga og velta vöngum. Einn aðilinn sem reyndar átti að vera í aðalhlutverki, Ólafur Egilsson stjórnarformaður Íslensks hátækniiðnaðar gat þó engu svarað um hverjir hefðu áhuga á að reisa olíuhreinsistöð en sagði þó að olían kæmi frá Rússlandi og yrði seld til Bandaríkjanna.

Arnarfjörður-1

 


Lára Hanna lætur myndirnar tala

Lára Hanna Einarsdóttir vinkona mín vekur athygli okkar á náttúrufegurð á Vestfjörðum. Hún er ein af fjölmörgum sem kemur reglulega vestur og nýtur fegurðarinnar með okkur heimamönnum,  enda er hún einstök, fegurðin og hún Lára Hanna reyndar líka.  Olíuhreinsistöð af rússneskum ættum er óhugsandi á þessum stað.

Ég setti bloggið hennar Láru Hönnu hér inn eins og það leggur sig. Sjáið ! 

Látum myndirnar tala

Myndir segja meira en mörg orð og hér fyrir neðan eru myndir af sunnanverðum Arnarfirði annars vegar og olíuhreinsistöðvum víða um heim hins vegar. Myndirnar fann ég með því að gúgla orðin "oil refinery".

Talað hefur verið um að reisa olíuhreinsistöðina í Hvestudal sem er annar dalur frá Bíldudal. Ég var þarna á ferð í fyrrasumar, keyrði út alla Ketildalina (samheiti yfir dalina í sunnanverðum Arnarfirði) og út í Selárdal sem er ysti dalurinn. Selárdalur er þekktur fyrir listaverk Samúels Jónssonar, listamannsins með barnshjartað, og Gísla á Uppsölum sem Ómar Ragnarsson kynnti fyrir þjóðinni endur fyrir löngu í einni af Stiklunum sínum. Ef olíuhreinsistöð yrði reist við Hvestu yrðu ferðalangar að keyra fram hjá henni til að komast í Selárdal. Hún myndi einnig blasa við frá Hrafnseyri, handan fjarðarins, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju Íslendinga.

Arnarfjörður er með fallegri fjörðum landsins, jarðfræðileg perla og löngum hefur verið talað um fjöllin þar sem vestfirsku Alpana. Þau eru ekkert tiltakanlega há, um 550-700 m, en því fegurri eru þau og hver dalurinn á fætur öðrum skerst eins og skál inn í landslagið út fjörðinn. Við dalsmynnin er falleg, ljós sandfjara og fuglalíf blómstrar hvarvetna.

En látum myndirnar tala. Reynið að ímynda ykkur landslagið með olíuhreinsunarstöð, olíutönkum og olíuskipum siglandi inn og út fjörðinn. Ég get ekki með nokkru móti séð fyrir mér slíkan óskapnað í þessum undursamlega fjallasal - og reyndar hvergi á okkar fagra landi. En sjón er sögu ríkari, dæmi nú hver fyrir sig.

Arnarfjörður-1

Arnarfjörður-2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Arnarfjörður-4

Arnarfjörður-3

 

 

 

 

 

 

 



Arnarfjörður-6-Hvesta

Arnarfjörður-7

 

 

 

 

 

 

 

 

Hampshire UK

Óþekkt staðsetning

 

 

 

 

 

 

 

Qatar

Indiana, USA

 

 

 

 

 

 

 

 




Kalifornía

Kanada

 

 

 

 

 

 

 




Kanada

Venezuela

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stundum kviknar í olíuhreinsistöðvunum...

England Oklahoma_USA
 

 

 

 

 

 

 

 

 

Er þetta sú framtíðarsýn sem Vestfirðingar og aðrir landsmenn vilja Íslandi til handa? Því trúi ég aldrei. Látið þetta ganga til annarra, sendið í tölvupósti til vina og vandamanna, vekið athygli á málinu.


Um skipun dómara hvers nafn ég hirði ekki um að nefna.

Ég má til með að benda á grein sem birtist í Fréttablaðinu 16. febrúar og á visir.is eftir Sigurð Líndal lagaprófessor. Hann hefur reglulega skrifað greinar í Fréttablaðið og undanfarið hefur hann skrifast á við nokkra Sjálfstæðismenn um skipan héraðsdómara hvers nafn ég hirði ekki um að nefna. Í lok greinarinnar talar lagaprófessorinn um að við getum átt von á greinaskrifum frá honum um stjórn fiskveiða. Ég hlakka til að lesa þau skrif.
Ég birti alla greinina hér.

Sigurður Líndal skrifar:

Eftirmáli umræðu
Skipan héraðsdómara


Athyglisverð umræða hefur farið fram um löglega og ólöglega stjórnarhætti í tengslum við nýlega skipun héraðsdómara. Umræðan varpar ljósi á margt sem einkennir orðræðu um stjórnmál hér á landi. Þótt nú hafi um sinn svokallað REI-mál og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um stjórn fiskveiða dregið að sér athygli, sýnist mér umræðan um dómaraskipunina geti varpað vissu ljósi á orð og ummæli manna í þeim málum.



Sannleikssniðganga

Fyrst blasir við að það virðist algert aukaatriði hvort menn segja satt eða ósatt í stjórnmálaumræðu, nema þegar Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni verður á fótaskortur. Sjálfsagt virðist að slíta texta úr samhengi til að hagræða umræðu, eins og Björn Bjarnason hefur gert og sýnt var fram á hér í blaði 9. febrúar sl. Ekki er tiltökumál að segja ósatt eins og Birgir Ármannsson gerir í blaðinu 24 stundum 17. janúar sl. þegar hann fullyrðir að því hafi „hvað eftir annað verið haldið fram að ráðherra væri bundinn af mati [dóm]nefndarinnar."

Ekkert virðist athugavert við að setja fram almennar fullyrðingar um álitsumleitan, eins og t.d. við ráðningu í tímabundin störf, og leggja það að jöfnu við störf dómnefndar samkvæmt lögum um dómstóla sem Sigurbjörn Magnússon gerir af nokkru steigurlæti í Morgunblaðinu 29. janúar sl. Slík framsetning er villandi og lýsir óheiðarleika í málflutningi.



Persónugerving

Morgunblaðið hefur frá upphafi leitazt við að persónugera málið og tilgangurinn er augljóslega að vekja samúð með dómaranum og drepa málinu þannig á dreif. Liðsauki barst svo í skrifi Gunnlaugs Jónssonar framkvæmdastjóra í Morgunblaðinu 14. febrúar sl. En þar er ekki látið staðar numið. Stak-Steinar, sbr. t.d. Morgunblaðið 22. des. sl., og Ívar Páll Jónsson blaðamaður, sbr. Morgunblaðið 25. janúar sl., hafa gert skipun formanns dómnefndarinnar í embætti sýslumanns á Ísafirði 1983 að umtalsefni. Stak-Steinar fer með ósannindi og hvorugur þeirra svarabræðra hefur sýnt fram á að gengið hafi verið á svig við reglur sem þá giltu né góða stjórnsýsluhætti. Á rangfærslur Stak-Steinars benti ég í Fréttablaðinu 18. janúar sl. og ekki sá hann neina ástæðu til að bregðast við. Ívar Páll heldur áfram í áðurnefndri grein og tengir skipun dómnefndarformannsins í embætti hæstaréttardómara 1991 við pólitískan klíkuskap og siðspillta menn í Sjálfstæðisflokknum. Hann lætur þess hins vegar ekki getið hvort gengið hafi verið gegn áliti Hæstaréttar, enda var það ekki gert.

Sú er þó brotalöm á allri þessari umræðu að málið snýst ekki um persónur, hvorki dómarans, né dómnefndarformannsins, heldur hvort farið hafi verið að lögum og gætt vandaðra stjórnarhátta. Sjálfur hef ég lagt áherzlu á þetta með því að nefna engin nöfn þeirra sem þar koma einkum við sögu.



Valdgerving

Ein vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Andersen, má eiga það að hún talar af fullri hreinskilni: Það á að leggja dómnefndina niður og færa allt skipunarferli dómara undir dómsmálaráðuneytið sagði hún eftir fund í Háskólanum í Reykjavík 23. janúar sl. Þetta er í samræmi við þá skoðun setts dómsmálaráðherra að starf pólitísks aðstoðarmanns dómsmálaráðherra eigi að vega þyngst við mat á hæfni manna til dómarastarfa og sé vænlegast til að tryggja sjálfstæði dómstóla. Hér er leiðarljósið að takmarka sem minnst ráðherraræðið, þannig að það valti ekki einungis yfir löggjafarvaldið, heldur einnig dómsvaldið. Af skrifum Birgis Ármannssonar, Sigurbjörns Magnússonar og Björns Bjarnasonar er ljóst að slíkar skoðanir eiga helzt til mikinn hljómgrunn meðal Sjálfstæðismanna.



Bókstafstrú

Vald er samkvæmt þessu ótakmarkað og bundið við bókstaf laganna; því verði einungis reistar skorður með öðru valdboði. Þetta birtist í síendurteknum yfirlýsingum um að álit dómnefndarinnar sé ekki bindandi og því þurfi að setja skýrar reglur um að hve miklu leyti það bindi ráðherra. Hér hvarflar ekki að mönnum að ráðherra setji sjálfur valdi sínu takmörk með því að gefa gaum áliti dómnefndar og huga að því hvers vegna henni var komið á fót. Það hefur allt verið rakið hér í fyrri greinum og að auki í skrifum dómnefndarinnar sjálfrar.



Umræðuhefð

Allt varpar þetta nokkru ljósi á stjórnmálastörf og stjórnmálaumræður á Íslandi sem hafa nú á síðustum dögum birzt með átakanlegum hætti, ekki sízt í skrifum um stjórn fiskveiða, þar sem blygðunarlaust er tvinnað saman ósannindum, rangfærslum og dylgjum. Það verður efni í aðra grein, jafnvel margar.

Höfundur er lagaprófessor.


Að lendi í því að segja ekki satt

Alvarlegt mál
„Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn segja ekki satt og rétt frá. Ég get einfaldlega sagt það að ef ég væri staðinn að svona löguðu þá myndi ég segja af mér.“

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í Fréttablaðinu 30. júlí 2003.

Eftir að Vilhjálmur lenti í því að segja ekki satt hefur hann verið dögum saman að íhuga stöðu sína.


 


Nú herjum við á Möllerinn

Nú er röðin komin að Kristjáni Möller samgönguráðherra. Ég hef ekki látið mitt eftir liggja í því að krefja samgönguráðherra um vegabætur á Vestfjörðum og oftast fengið bágt fyrir hjá bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ.  Þau hafa allt of oft ályktað um samgöngumál á þennan hátt "mikið hefur áunnist og það ber að þakka" Sturla Böðvarsson fékk röng skilaboð frá bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ og leit því svo á að ekki þyrfti að hafa miklar áhyggjur af vegabótum á því svæði.  Ef einn vegspotti var lagfærður þá var blásið í fagnaðarpípurnar og keyptar snittur og öllum boðið í hófið.

Þrátt fyrir þakklæti og fínar veislur eru Vestfirðingar enn að berjast fyrir því að komast inn í nútímann hvað varðar samgöngur. Þetta á bæði við um vegina sem við keyrum á og háhraðatengingar sem flytja upplýsingar milli manna í gegnum grunnnetið sem var einu sinni eign Landssímans. Nú er komið að þér Kristján Möller. Á þér hvílir sú skilda sem samgönguráðherra að byggja upp nútímalega vegi og koma á tengingu.

Kristján þú verður rukkaður um þetta allt kjörtímabilið. Þetta er fyrsta áskorun mín og vonandi þurfa þær ekki að vera mjög margar.   


Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum

Margt og mikið hefur verið ritað í fjölmiðlum um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Sitt sýnist hverjum eins og gengur og hef ég fáa hitt sem ekki hafa skoðun á málinu.  Fólk er með eða á móti, klárt og kvitt.   Mér finnst rússnesk olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hljóma einhvern veginn ótraustvekjandi. Alla vega er hugmyndin langt frá því að vera aðlaðandi.

  

Ég rakst á grein um þetta undarlega mál eftir Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hún vekur í grein sinni athygli á að Ólafur Egilsson sem stenur á bak við fyrirtæki sem  heitir Íslenskur hátækniðnaður hafi fyrir nokkrum árum reynt að selja Íslendingum viðskiptahugmyndina olíuhreinsistöð en íslensk stjórnvöld, sópaðu hugmyndinni út af borðinu. Nú er Ólafur aftur kominn upp á dekk og nú er það ekki Skagafjörðurinn heldur Vestfirðir.  Ólög Guðný segir í greininni; "Fyrirtækið Íslenskur hátækniiðnaður ehf. var stofnað í aprílmánuði síðastliðnum eða um sama leyti og fréttir af mikilli undirbúningsvinnu fyrirtækisins komu í fjölmiðlum. Hlutverk fyrirtækisins er rekstur eignarhaldsfélaga. Fyrirtækið er ekki með virðisaukanúmer og margt bendir til að umsvifin og viðskiptin hafi ekki verið stórvægileg til þessa. ,,

Grein Ólafar er hér http://www.natturuverndarsamtok.is/news.asp?ID=517   


Opinber viðurkenning á óþægilegum staðreyndum

Þá höfum við það, svart á hvítu. Samgönguráðherra, Kristján Möller hefur viðurkennt opinberlega ástandið í vegamálum á Vestfjörðum og sagt sannleikann varðandi samgöngumál á svæðinu. Hingað til hafa þeir sem vakið hafa athygli á slæmu ástandi vega á Vestfjörðum verið kallaðir nöfnum. Niðurrifsöfl er t.d eitt nafnið sem forystumenn og konur í Sjálfstæðisflokknum á Ísafirði hafa notað yfir fólk sem vill sækja þann sjálfsagða rétt okkar að sitja við sama borð og aðrir landsmann hvað varðar samgöngumál.

Það er best að ég nefni þetta fólk sínum réttu nöfnum úr því ég er farin af stað á annað borð. Þau heita Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar í sama bæ og ekki ætla ég að gleyma einu nafni til viðbótar sem er Sturla Böðvarsson fyrrverandi ráðherra samgöngumála og núverandi þingmaður í Norðvestur kjördæmi. Þetta fólk hefur verið ötult við að skrifa greinar og tala í fjölmiðlum um það mikla þrekvirki sem samgönguráðherra á að hafa unnið í vegamálum á Vestfjörðum. Setning eins og  "mikið hefur áunnist í vegamálum" hefur hjakkað eins og rispa í geisladiski allt síðasta kjörtímabil.  Ef einhverjir hafa mótmælt og bent á ófremdarástand í samgöngumálum hafa þeir eins og áður sagði verið kallaðir nöfnum og þeim jafnvel hótað "ekki eins góðu samstarfi við ráðuneytið ef þeir kjósi nú ekki rétt" samanber grein sem Sturla skrifaði fyrir síðustu alþingiskosningar.

Ætla Birna og Halldór að kalla nýjan samgönguráðherra nöfnum nú?  Hann viðurkenndi jú á Alþingi fimmtudaginn 6. desember að verstu vegir landsins væru á Vestfjörðum, í Barðastrandasýslu þar sem nú á að ráðast í vegaframkvæmdir.  

 


Tvíburarnir Már Óskar og Valdís Rós

Ég má til. Ég ætla að blogga núna aðeins fyrir ættingja og vini í stað þess að sitja við símann í allt kvöld og tilkynna gleðifréttirnar.  Ég er svo ánægð með börn og buru og verð að deila þessu með ykkur. Barnabörnin tvö sem fæddust 25. október sl. voru skírð í dag. Kata og Steini héldu nöfnunum leyndum og ENGINN fékk að vita neitt fyrr en börnin voru skírð. Tvíburarnir heita Már Óskar og Valdís Rós. Steini og Kata héldu stórveislu í salnum hjá Stebba Dan og þvílík veisla. Ég setti inn nokkrar myndir fyrir ykkur sem teknar voru í veislunni.  Fyrir þau sem ekki vita hvaðan nöfn eru komin þá heitir mamma hennar Kötu Valdís og afi hennar Kötu er kallaður Gummi Rós aflakló úr Bolungarvík.  Það þarf ekkert að fjölyrða um Má Óskarsson Ísfirðing og pabba hans Steina. Til hamingju Már og Dísa með nöfnin á börnunum. Er hægt að fá betri skilaboð frá börnunum sínum?

bell 007

bell 013

Ánægðir foreldrar

Tveir Márar og tvær Valdísir

 

 

 

 

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.